Málstofa um starfsmenntun 15. mars 2016: Fámennar iðngreinar

image_pdfimage_print

Fámennar iðngreinar

Þann 15. mars 2016 fór fram umræðufundur um fámennar iðngreinar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Rætt var um fámennar iðngreinar og leiðir til að tryggja kennslu í þeim. Frummælandi var Hjalti Jón Sveinsson en mestur tími fór í samræðu og skoðanaskipti. Á fundinn mættu 29 manns úr öllum áttum og voru umræður líflegar. Í lok fundarins tók Jón Torfi Jónasson saman nokkra helstu punkta úr umræðunni.

Hér að neðan er svo samantekt Elsu Eiríksdóttur á umræðu fundarins:

Hvernig á að skilgreina fámennar iðngreinar?

Rætt var um ólíkar leiðir við að skilgreina og flokka iðngreinar í fjölmennar eða fámennar. Hægt er að skilgreina fámennar greinar út frá skólum (erfitt að halda úti kennslu) eða út frá atvinnulífinu (grein of fámenn fyrir íslenskt atvinnulíf). Það er, er þetta vandamál skólans eða iðngreinarinnar? Hjalti Jón benti á í sínu erindi að skilgreining á fámennri grein geti verið afstæð og breytileg eftir staðsetningu á landinu og tíðaranda. Þannig getur fámenni greinar birst í því að nemendur séu of fáir á tilteknum stað (nemendur dreifast of víða) eða of fáir alls.

Í þessari málstofu var áherslan á að fjalla um fámennar greinar út frá því hvernig hægt er að tryggja kennslu og endurnýjun í fámennum greinum. En þó var bent á að mikilvægt væri að ræða í þessu samhengi hvað er ásættanlegur fjöldi í grein til að tryggja framgang og framhald greinar? Og einnig skiptir máli að skoða hver ákveður hvaða greinar eru mikilvægar fyrir íslenskt samfélag, þegar rætt er um að hér beri að mennta fagfólk sem atvinnulífið þarf á að halda. Hvaða greinar eru úreltar og hverjum þurfum við á að halda? Bent var á að í sumum greinum (byggingargreinar nefndar sem dæmi) væru sífelldar breytingar á þörf fyrir fagfólk sem væri mætt með innfluttu vinnuafli en ekki með samvinnu við menntakerfið.  Atvinnuöryggi og stöðugleiki greinar hlytu að spila inn í hvort skynsamlegt væri að ræða um fjölgun í tiltekinni grein. Því er samvinna skóla og atvinnulífs mjög mikilvæg.

Forsendur námsvals og staðsetning náms á landinu

Í þessu samhengi skiptir máli að skoða forsendur fyrir námsvali hjá nemendum og hvort það skipti þá meira máli að vera nær heimahögunum eða velja tiltekið nám? Hér þarf einnig að skoða hvort nemendur viti hvar iðnnám fari fram og hvað er í boði. Nemendur hafa ekki forsendur til að velja nám sem þeir vita ekki af, því kannski eðlilegra að þeir grípi í það sem er nærtækt hvort sem er út frá algengi (t.d. bóknám/stúdentsbrautir) eða staðsetningu. Mikilvægt er að skoða framtíðaráætlanir nemenda, hvernig hægt er að gera námið aðlaðandi fyrir þá og tryggja að þeir hafi atvinnu að námi loknu. Einnig er áhugavert að enginn þeirra framhaldsskóla sem hafa verið stofnaðir á þessari öld býður upp á iðnnám. Síðasti framhaldsskólinn sem var stofnaður sem býður upp á iðnnám er Borgarholtsskóli (1996).

Rætt var um að námsframboð í heimahögum stýri oft námsvali ungmenna og því væri ekki endilega lausn að sameina nám í fámennri grein á einn skóla. Þó eru dæmi um ótvíræðan kost þess að sameina nám á einn stað, eins og gert var með pípulagnir, en þá var loksins hægt að fara af stað með kennslu í faginu. Einnig eru dæmi eins skrúðgarðyrkja, þar sem einn skóli í Ölfusinu þjónar öllu landinu og það virðist ekki hafa staðið náminu fyrir þrifum. Spurningin er þó hvort hér sé aldur nemenda lykilatriði, en meðalaldur nemenda í þessu námi er um þrítugt. Þegar kemur að yngri nemendum er ekki raunhæft að ætlast til þess að nemendur flytji 16 ára að heiman til að fara í skóla annarsstaðar á landinu. Það er því spurning hvort hægt sé að færa námið til nemenda? Til dæmis með sameiginlegum áföngum eða módúlum, fjarnámi eða með því að bjóða upp á vinnustaðanám nær heimahögunum. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu samhengi að brottflutningur nemenda í skóla getur haft það í för með sér að nemendur snúa ekki aftur í smærri samfélög með þekkinguna í farteskinu. Þetta ætti því að vera hagsmunamál sveitarfélaga. Í þessu samhengi þarf að hugsa um hverjum er verið að þjóna? Samfélaginu? Nemendum? Er okkur ekki skylt að bjóða nemendum menntun þar sem þeir eiga heima? Og hvernig verður það best gert? Mikilvægt er að móta  skýra stefnu í þessum málum.

Hvernig eigum við að tryggja kennslu í greinum þar sem nemendur eru fáir og dreifðir?

Ein tillaga var að taka upp meistarakerfið eins og það var – fara í kerfið sem hægt væri að nefna „gamli iðnskólinn“.  Bent var á að erfitt væri að skoða eina lausn fyrir allar greinar, í sumum greinum er ekki hægt að taka við nemendum á vinnustað en í öðrum greinum er ekki hægt að halda út námi í skóla. Mikilvægt væri að geta aðlagað kerfið að þörfinni og þegar þarf á að halda væri útbúið sérsniðið nám í tiltekinni grein (t.d. hefur það verið gert í skósmíði og steinsmíði). Sumar greinar krefjast þannig sérsniðins náms en aðrar stærri þurfa að vera í skóla því atvinnulífið geti ekki haldið úti þjálfun fyrir þann fjölda sem sækir námið (t.d. rafvirkjun). Einnig hefðu breytingar á atvinnulífinu valdið því að meistarakerfið gæti ekki tekið á móti nemendum eins og þegar gamli iðnskólinn var við lýði.

Einnig var rætt hvað skólinn þyrfti stóran nemendahóp til að standa undir kennslu. Tekið var dæmi um gull- og silfursmíði í Tækniskólanum, en þar eru aðeins 6 nemendur í hverjum hópi en gerðar eru kröfur um að allir nemendurnir séu inn í stofunni á sama tíma til að nýta bjargir. Hópaviðmið um fjölda í námi og reiknireglur skipta máli og í því samhengi verður að horfa til þess að þessir hlutir eru mjög afstæðir út frá staðsetningu (sérstaklega ef höfuðborgarsvæðið og aðrir staðir eru bornir saman). Á fámennari stöðum geta einn eða tveir nemendur skipt sköpum um hvort kennsla geti haldið áfram í grein eða ekki. Spurning hvort eðlilegra væri að tala um hlutfall af starfandi iðnaðarmönnum á svæðinu í stað þess að ákvarða eina tölu? Ekki má heldur gleyma að sérhagsmunir skóla spila rullu í þessu máli, og hér geta stangast á hagsmunir skóla (mikilvægi þess að hafa nægilega stóran nemendahóp til að halda úti námi) og hagsmunir greinarinnar (mikilvægi þess að bjóða upp á nám víða til að laða að fleiri nemendur). Þó eru mörg dæmi um mjög gott samstarf skóla (t.d. á vettvangi Fjarmenntaskólans) til að tryggja nám og vinna í sameiningu að ólíkum hagsmunum.

Alþjóðlegt samhengi

Á fundinum kom upp umræða um breytta heimsmynd og hreyfanleika fagfólks, t.d. bara innan Evrópusambandsins. Því verður iðnmenntakerfið á Íslandi að vera skipulagt með tilliti til nýrrar heimsmyndar og losna úr viðjum þess að einblína bara atvinnulífið á Íslandi.

Einnig kom til umræðu hvort við værum að ætla okkur of mikið í iðnnámi miðað við fjölda. Það er, hvort við gerðum of miklar kröfur um sérhæfingu fagfólks miðað við fámenni? Bent var á að það tíðkast víða að senda menn á endurmenntunarnámskeið erlendis og af hverju væri ekki hægt að tryggja sérhæfingu á þennan hátt innan iðnmenntakerfisins? Þannig væri einnig hægt að tryggja kennslu í nýjungum fagsins og alþjóðlega samkeppnishæfni án þess að gera kröfur um að skólinn taki það allt upp á sína arma. Skólarnir gætu til dæmis samið við þá sem eru í greininni alþjóðlega til að senda nemendur út í námskeið eða hluta náms. Kosturinn við þetta væri meðal annars sá að þannig væri ýtt undir ævilangt nám (life-long learning) þar sem fólk sækir þekkingu út fyrir landsteinanna.

Samantekt Jóns Torfa

 • Dæmi 1 – í Færeyjum er slæmt ástand vegna brottflutnings ungs fólks.
 • Dæmi 2 – Nám í plastiðn (35 ár síðan).
 • Atvinnulífið og samtalið við það
  • Lifandi samtal við atvinnulífið skiptir máli til að endurnýjun í skólanum eigi sér stað (dæmi frá Finnlandi).
  • Atvinnulífið breytist hratt – verðum að taka það inn í umræðuna þegar við tölum um breytingar á námi, ekki bara tæknibreytingar heldur líka starfsumhverfi fyrirtækja og sérhæfingu.
  • Skiningur atvinnulífsins á mikilvægi menntunar – sumir skilja það eða aðrir ekki.
  • Verðum að skoða hvaða hagsmunum er verið að þjóna?
 • Hvenær á sérhæft starfsnám að byrja
  • Ætti að byrja 18 við ára aldur – frekar spurning hvenær það gerist heldur en hvort.
  • Sérkennileg sú gamla hugmynd að nemendur velji sér nám á einu tilteknum aldri. Að mega ekki fara í iðnnám eftir 25 ára aldur – ætti ekki frekar að spyrja hvort 35 ára séu ekki til í að skoða breytingu? Ekki bara horfa á val 16 til 18 ára unglinga – heldur leita fanga í eldri hópum.
 • Þarf eitt kerfi fyrir alla?
  • Nei, ættum að geta haft ólíkar leiðir eftir greinum – skiptir máli að ræða það. Hægt væri t.d. að gera ráð fyrir 3 leiðum (eftir skólum, fjölda nemenda eða greinum).
  • Gæti verið frjótt að komast upp úr þessu fari að spyrja hvernig á að kenna 6 nemum heldur hvernig getum við skipulagt nám fyrir hvaða iðngrein sem er – ólíkar leiðir.
  • Kemur inn á skólaþróun – hvað eru skólarnir að gera til að þróast?
  • Tengsl við erlenda skóla – bæði viðvera og fjarkennsla. Eru skólar að nýta sér svona?
  • Starfsþróun kennara.
  • Hvernig skipuleggjum við nám sem er lifandi þann tíma sem maður er í tilteknu starf? Það er aðal spurningin.

Skildu eftir svar